Tónlist

Hætt við tónleika Nightwish

Snorri segir tónleikahald of mikla áhættu.  MYND/Arnþór
Snorri segir tónleikahald of mikla áhættu. MYND/Arnþór

Snorri H. Guðmundsson þurfti að hætta við tónleika með þungarokkssveitinni Nightwish vegna ástands í efnahagslífinu.

Finnska þungarokksveitin Nightwish mun ekki spila í Laugardalshöll þann 25. október eins og ætlað var. Á heimasíðu hljómsveitarinnar kemur fram að tónleikunum hafi „verið aflýst af tónleikahaldara, sem dró bókunina til baka í flýti áður en forsala hófst".

Snorri H. Guðmundsson markaðsfræðingur er tónleikahaldarinn sem um ræðir. Hann segir gengisfall krónunnar hafa hækkað kostnað upp úr öllu valdi og samdráttinn í þjóðfélaginu gera mönnum ókleift að flytja inn millistór bönd.

„Jafnvel þótt ég myndi fylla Höllina næði það ekki að dekka kostnaðinn. Ég hef verið að tala við þá í Laugardalshöllinni og á miða.is og það eru allir á þeirri skoðun að það sé stórhættulegt að halda tónleika núna og menn eru víst að bakka út í stórum stíl. En það hefði verið gaman að fá þau hingað." Snorri spáði reyndar fyrir um efnahagsskellinn 2006. „Ég vissi bara ekki að hann yrði svona stór." Hann segir aukaskattlagningu á útlent tónleikahald ekki hafa skipt sköpum í þessu máli.

Hvernig bregst hljómsveitin við? „Bara mjög vel. Ég var svolítið stressaður að þau myndu verða fúl." Einn meðlima skrifaði Snorra: „Ég skil ástæður þínar algjörlega og við tökum þetta alls ekki stinnt upp. Það getur verið að við komum samt til Íslands í frí, ef við erum ekki að spila annars staðar. Ef það gerist þurfum við að hittast og fá okkur drykk saman."

Snorri segir alla aðila sem að komu hafa veitt sér fullan stuðning. „Þeir hjá miða.is sögðust vera mjög fegnir yfir því að ég hafði bakkað út." Nightwish hafa að vera að gera það gott nýlega. DVD diskur þeirra, End of an Era, fór í platínum-sölu í Þýskalandi en diskurinn hefur selst í 50.000 eintökum. -kolbruns@frettabladid.is










Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.