Innlent

Jóhannesi hótað lífláti vegna Kompásþáttar

Jóhannes Kr. Kristjánsson, ritstjóri Kompáss, hefur kært líflátshótun sem honum barst í gegnum þriðja aðila.

Telur Jóhannes að það sé vegna Kompásþáttar sem sýna á í kvöld þar sem fjallað er um handrukkara. Þar verður sjónum beint að árás Benjamíns Þórs Þorgrímssonar, líkamsræktarþjálfara og meints handrukkara, á Ragnar Magnússon athafnamann.

Jóhannes var í viðtali í þættinum Bylgjan í bítið í morgun þar sem hann ræddi um þáttinn. Þar hafnaði hann þeim fullyrðingum Benjamíns að Kompás væri að búa til bíómynd en Benjamín hefur hótað skaðabótamáli á hendur 365 fari þátturinn í loftið.

Jóhannes sagðist jafnframt vera að fara niður á lögreglustöð til þess að kæra líflátshótun sem honum hefði borist í gegnum þriðja aðila í gær. Hann hefði fengið þau skilaboð að það ætti að ganga frá honum ef þátturinn færi í loftið. Aðspurður sagðist hann taka þessu alvarlega en hann væri þó ekki hræddur. Þátturinn færi í loftið.

Viðtalið við Jóhannes má nálgast hér.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×