Erlent

Fjármálaráðherra Breta gegn drykkju og reykingum

Alistair Darling heldur á tösku fjármálaráðherra á tröppum ráðuneytis síns á Downing stræti 11.
Alistair Darling heldur á tösku fjármálaráðherra á tröppum ráðuneytis síns á Downing stræti 11. MYND/AFP

Drykkjufólk, reykingafólk og ökumenn bíla sem menga mikið eru skotmörk Alistairs Darling, fjálaráðherra Bretlands, í nýju fjárlagafrumvarpi. Í því eru áform um endurskoðun á niðurskurði bifreiðatolls og kynntur til sögunnar nýr skattur gegn þeim bílum sem menga hvað mest.

Á sama tíma hækka áfengisgjöld um sex prósent umfram verðbólgu í herferð gegn taumlausri drykkju í Bretlandi. Bjór mun þannig hækka um sex krónur á rúman hálfan lítra, vín um 20 krónur flaskan og sterkt áfengi um 77 krónur flaskan frá og með miðnætti á sunnudag.

Reykingamenn þurfa einnig að greiða meira. Sígarettupakkinn mun hækka um rúmar 15 krónur. Fjármálaráðherrann varar einnig við því að hann muni setja gjald á plastpoka nema smásalar taki sig saman og haldi aftur af notkun þeirra.

Tilraun hans til að koma grænum markmiðum sínum í framkvæmd var íþyngt með ákvörðun um að fresta þriggja króna hækkun eldsneytisskatts. Honum hefur verið frestað frá 1. apríl til 1. október.

Darling heldur því fram að þessar „ábyrgu" aðgerðir hans muni auðvelda honum að grípa til aðgerða gegn barnafátækt.

Fjármálaráðherrann breytti fyrri fjárhagsspá og lækkaði hagvöxt niður í 1,75 - 2,25 prósent og tilkynnti aukningu í lántökum ríkisins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×