Viðskipti innlent

Gengi Existu komið undir sjö krónur

Lýður og Ágúst Guðmundssynir, stærstu hluthafar Existu. Stórar eignir félagsins hafa lækkað í verði í dag.
Lýður og Ágúst Guðmundssynir, stærstu hluthafar Existu. Stórar eignir félagsins hafa lækkað í verði í dag. Mynd/GVA

Gengi hlutabréfa í Existu hefur fallið um rúm 3,9 prósent frá því viðskipti hófust á markaði í Kauphöllinni í dag. Þetta er mesta lækkun dagsins. Stærstu eignir félagsins, Bakkavör og finnska fjármálafyrirtækið Sampo, hafa sömuleiðis lækkað í dag.

Bakkavör hefur fallið um 2,26 prósent og Sampo, sem skráð er í finnsku kauphöllina, hefur lækkað um 1,78 prósent og stendur gengi bréfa í félaginu í 14,94 evrum á hlut. Gengi Sampo fór hæst í tæpar 25 evrur á hlut í apríl í fyrra.

Á hæla Existu og Bakkavarar fylgir Glitnir, sem hefur lækkað um rúm 1,9 prósent. Össur, Kaupþing, Landsbankinn, Færeyjabanki, Straumur og Century Aluminum hafa öll lækkað um rúmt prósent. Þá hefur gengi Alfesca, Eimskipafélagsins og Atorku lækkað um tæpt prósent.

Á sama tíma hefur gengi bréfa í Icelandair hækkað um 0,3 prósent en það er jafnframt eina félagið sem hefur hækkað í verði í dag.

Úrvalsvísitalan hefur þessu samkvæmt lækkað um 1,66 prósent og stendur vísitalan í 4.254 stigum. Hún hefur ekki verið lægri síðan seint í júlí fyrir þremur árum.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×