Kobe Bryant hjá LA Lakers skoraði 48 stig fyrir liðið í sigrinum á Seattle í nótt. Þetta var í 87. skiptið á ferlinum sem Bryant skorar 40 stig eða meira í NBA deildinni og nú vantar hann aðeins einn 40 stiga leik til að komast í þriðja sætið yfir flesta 40+ stiga leiki á ferlinum.
Það er goðsögnin Wilt Chamberlain sem er langefstur á þeim lista, en hann skoraði 40 stig eða meira í 271 leik á ferlinum og er jafnframt eini maðurinn sem skorað hefur 100 stig í leik í NBA deildinni.
Annar á listanum er Michael Jordan, en hann skoraði 170 sinnum 40 stig eða meira á ferlinum. Lakers maðurinn Elgin Baylor er svo í þriðja sæti listans og skoraði hann 88 sinnum 40 stig eða meira og því vantar Bryant aðeins einn 40 stiga leik til að komast upp að hlið hans.
Maðurinn í fimmta sæti listans er svo enn að, en það er hinn smái en knái Allen Iverson hjá Denver sem hefur skorað 40 stig eða meira 79 sinnum á ferlinum.
Það sem er líklega athygliverðast við árangur Kobe Bryant í þessum 87 leikjum hans með 40 stig eða meira, er að flestir þeirra, 57 talsins, hafa komið eftir að Shaquille O´Neal var skipt frá Lakers leiktíðina 2004-05.