Körfubolti

Öruggt hjá Grindavík í Smáranum

Páll Axel Vilbergsson var stigahæstur hjá Grindavík í kvöld
Páll Axel Vilbergsson var stigahæstur hjá Grindavík í kvöld Mynd/Anton Brink

Þrír leikir fóru fram í Iceland Express deild karla í körfubolta í kvöld. Grindvíkingar héldu sínu striki í toppbaráttunni þegar þeir lögðu Blika 79-61 í Smáranum.

Grindvíkingar höfðu frumkvæðið frá fyrstu mínútu í leiknum og spiluðu grimma pressuvörn sem reyndist heimamönnum erfið viðureignar. Sóknarleikur Grindvíkinga hefur þó oft verið betri og virkuðu suðurnesjamenn hálf daufir á köflum.

Páll Axel Vilbergsson var stigahæstur hjá Grindavík með 21 stig, Páll Kristinsson skoraði 15 stig og Arnar Freyr Jónsson skoraði 8 stig, gaf 10 stoðsendingar og hirti 8 fráköst.

Daníel Guðmundsson og Nemanja Sovic skoruðu 18 stig hvor í liði Breiðabliks en Sovic hirti auk þess 17 fráköst.

Á Akureyri fór fram norðurlandsslagur þar sem Tindastóll heimsótti Þór. Stólarnir höfðu betur 82-77 í hörkuleik þar sem gestirnir sigu fram úr í fjórða leikhlutanum.

Cedric Isom var að venju stigahæstur hjá Þórsurum með 33 stig og þeir Baldur Jónasson og Guðmundur Jónsson 15 hvor.

Darrell Flake skoraði 21 stig og hirti 9 fráköst fyrir Tindastól og þeir Alan Fall og Svavar Birgisson skoruðu 18 stig hvor.

Loks vann Snæfell öruggan heimasigur á FSu í Stykkishólmi 88-61. Sigurður Þorvaldsson skoraði 25 stig fyrir Snæfell og þeir Hlynur Bæringsson og Jón Jónsson skoruðu báðir 23 stig og hirtu 12 fráköst.

Tyler Dunaway var stigahæstur í liði FSu með 16 stig, en segja má að úrslit leiksins hafi ráðist í frákastabaráttunni þar sem Snæfell hafði betur 46-21. Eins og sjá má á þeirri tölfræði voru tveir frákastahæstu menn Snæfells með fleiri fráköst í leiknum en allt FSu liðið.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×