Erlent

Krúnukúgararnir höfðu ekkert myndefni

Óli Tynes skrifar
Paul Aðalsteinsson.
Paul Aðalsteinsson.

Íslendingurinn sem er sakaður um að hafa reynt að kúga fé út úr meðlimi konungsfjölskyldunnar hafði ekki í höndunum neinar upptökur af þessum meðlimi að gera eða segja eitt eða neitt.

Þess í stað var Paul Aðalsteinsson með átta klukkustundir af upptökum á samtölum við fyrrverandi starfsmann sem var ýmist drukkinn eða undir áhrifum lyfja. Samtölin tók hann upp á farsíma sinn og færði síðan yfir í tölvu.

Paul Aðalsteinsson kom fyrir rétt í Old Baily í gær ásamt félaga sínum Sean McGuigan. Saksóknarinn í málinu segir að starfsmaðurinn fyrrverandi hafi borið fram allskonar ásakanir.

Meðal annars að viðkomandi meðlimur konungsfjölskyldunnar sem er karlkyns hafi átt við sig munnmök.

Hann lýsti einnig áliti sínu á öðrum meðlimum konungsfjölskyldunnar á fjandsamlegan og niðurlægjandi hátt.

Saksóknarinn segir að þeir félagar hafi reynt að selja breskum fjölmiðlum þetta efni. Þar á meðal News of The World, The Sun, Sunday Express og Mail á Sunday.

Enginn þessara fjölmiðla hafi viljað líta við efninu. Þá hafi þeir snúið sér beint að hinum konungborna og reynt að kúga út úr honum fimmtíu þúsund sterlingspund.

Félagarnir neita sök. Þeir eiga yfir höfði sér allt að 14 ára fangelsi ef þeir verða sakfelldir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×