Stóru tryggingafélögin þrjú eru með aukinn viðbúnað vegna jarðskjálftanna á Suðurlandi.
Skrifstofur VÍS á Selfossi og í Hveragerði verða opnar um helgina frá níu til fimm. Starfsmenn þar hafa fengið liðsauka frá Reykjavík.
Aldrei hafa fleiri símtöl borist félaginu á einum degi en í gær. Síðdegis í gær var VÍS þegar búið að taka á móti yfir 800 tilkynningum um tjón vegna skjálftanna. Þrettán manna teymi frá félaginu mun svo meta tjón á heimilum fólks um helgina.
Tryggingamiðstöðin hefur líka bætt við mannafla og opnað þjónustustöð í Hveragerði í húsnæði Heilsustofnunar NLFÍ við Grænumörk.
Bæði þar og á Selfossi verður opið um helgina klukkan níu til fjögur. Starfsmenn félagsins munu við fyrsta tækifæri heimsækja fólk og meta tjón á innbúi.
Og útibú Sjóvár á Selfossi verður opið um helgina milli níu og fjögur.