Erlent

Gullskip fundið undan strönd Namibíu

Óli Tynes skrifar
Portúgölsk karavel, eins og Bartolomeu Dias sigldi á.
Portúgölsk karavel, eins og Bartolomeu Dias sigldi á.

Demantafyrirtæki Namibíu tilkynnti í dag að það hefði fundið flak af 500 ára gömlu skipi undan strönd landsins.

Fyrirtækið var að leita að demöntum á hafsbotni. Um borð fundust meðal annars þúsundir portúgalskra gullpeninga, 50 fílatennur, nokkur tonn af kopar, fallbyssur úr kopar, ýmiskonar vopn og líkamsleifar.

Konunglegir skartgripir sem fundust um borð benda til að þetta geti verið skip portúgalska landkönnðarins Bartolomeu Dias. Hann hvarf í hafi við Góðrarvonarhöfða árið 1500.

Dias var aðalsmaður sem tilheyrði portúgölsku konungsfjölskyldunni. Hann var fyrsti vestræni sæfarinn sem sigldi fyrir Góðrarvonarhöfða.

Það var árið 1488 og með því opnaði hann arðbæra siglingaleið til Austurlanda fjær.

Frekari demantaleit var hætt þegar flakið fannst og portúgalska ríkisstjórnin hefur verið látin vita af fundinum. Búist er við að hún sendi sérfræðinga til að skoða flakið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×