Erlent

Kínverjar í mál við CNN

Óli Tynes skrifar
Jack Cafferty móðgaði eina komma þrjá milljarða manna.
Jack Cafferty móðgaði eina komma þrjá milljarða manna.

Hópur kínverskra lögfræðinga hefur höfðað mál á hendur CNN sjónvarpsstöðinni vegna þess að álitsgjafi hennar kallaði Kínverja dólga.

Það var verið að ræða um Kína og Tíbet og Jack Cafferty bætti um betur með því að segja að Kínverjar seldu hreint drasl til Vesturlanda. Þessu reiddust Kínverjar ákaflega og utanríkisráðuneyti þeirra krafði CNN um afsökunarbeiðni.

CNN hefur ekki orðið við þeirri kröfu. Því hafa lögfræðingarnir ákveðið að fara sínar eigin leiðir og höfðað mál fyrir kínverskum dómstól.

Lögfræðingarnir segjast aðeins vilja endurheimta virðingu kínversku þjóðarinnar. Því krefjast þeir þess að ummælin verði dregin til baka, en krefjast ekki nema um eittþúsund króna í bætur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×