Sport

Þriðji sigur Serenu á Flushing Meadows

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Serena Williams með sigurlaun sín og Jelena Jankovic með silfurverðlaun sín.
Serena Williams með sigurlaun sín og Jelena Jankovic með silfurverðlaun sín. Nordic Photos / AFP

Serena Williams fagnaði í gær sigri á opna bandaríska meistaramótinu í tennis í þriðja sinn á ferlinum.

Hún bar sigurorð af Jelenu Jankovic frá Serbíu í úrslitum, 6-4 og 7-5 en Jankovic var að keppa í úrslitum á risamóti í fyrsta sinn á ferlinum, þó svo hún sé í öðru sæti styrkleikalista Alþjóða tennissambandsins.

Jankovic byrjaði betur í viðureigninni en Serena barðist fyrir sínu og vann uppgjöfina af Jankoviv í þrígang. Hún kláraði svo annað settið með miklu öryggi.

Þetta var hennar níundi sigur á risamóti en hún hefur unnið opna ástralska þrisvar, Wimbledon-mótið tvívegis og opna franska einu sinni. Systir hennar, Venus, vann á Wimbledon-mótinu nú í ár.

Með sigrinum kom hún sér í efsta sæti áðurnefnda styrkleikalista. „Ég var nú ekki einu sinni að reyna að ná efsta sætinu og það var bara bónus. En það var töfrum líkast hvernig ég náði að láta allt koma heim og saman. Þetta er svo sérstakt því ég hef unnið hörðum höndum fyrir þessu."

„Ég er ekki búin. Mér finnst ég vera svo ung og orkumikil í hverri einustu viku. Mér líður eins og ég hafi öðlast glænýjan feril," sagði hin 26 ára gamla Serena.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×