Innlent

Segir orð Vilhjálms aumkunarverð

Yfirlýsingar Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar um að borgarfulltrúar Samfylkingar hafi ekki axlað ábyrgð í REI málinu, eru aumkunarverðar. Þetta segir Sigrún Elsa Smáradóttir borgarfulltrúi Samfylkingar sem var varamaður í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur.

Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson oddviti sjálfstæðismanna sagði á blaðamannafundinum í Valhöll í gær að það væru fleiri sem ekki hefðu axlað ábyrgð þegar samruni REI og Geysis Green Energy var samþykktur síðastliðið haust.

Á fundinum sagði Vilhjálmur að fjölmiðlamönnum væri tíðrætt um að axla ábyrgð. Hann teldi sig hafa gert það og myndi halda áfram að gera það. Spurði hann hvort aðrir hefðu axlað ábyrgð og benti á að varamaður Dags B. Eggertssonar í stjórn Orkuveitunnar, Sigrún Elsa Smáradóttir, hefði samþykkt samkomulagið án athugasemda

Sigrún Elsa Smáradóttir gefur lítið fyrir yfirlýsingar Vilhjálms. „Ég stóð ásamt Svandísi Svavarsdóttur að tillögu á þessum stjórnar- og eigendafundi sem gekk út á það að fresta málinu. Hann felldi þá tillögu og með því var knúin fram atkvæðagreiðsla um málið. Á þeim forsendum og miðað við þá kynningu sem við höfðum fengið þá var þessi samruni mjög æskilegur að mörgu leyti enda hafði veigamiklum atriðum málsins verið haldið leyndum fyrir kjörnum fulltrúum eins og nú hefur komið fram og virðist Vilhjálmur sjálfur hafa tekið þátt í því," segir Sigrún Elsa. Því séu orð Vilhjálms í gær aumkunarverð tilraun af hans hálfu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×