Innlent

Komu tveimur frönskum skíðagönguköppum til aðstoðar

Hjálparsveitin Dalbjörg í Eyjafirði og Björgunarsveitin Súlur frá Akureyri komu í dag tveimur frönskum skíðagönguköppum til aðstoðar sem hugðust ganga þvert yfir hálendið. Fram kemur á heimasíðu Dalbjargar að skíðagöngumennirnir hafi lagt af stað inn á hálendið ofan Eyjafjarðar í gær og ætluðu þeir að ganga suður yfir það.

Þegar þeir vorku komnir upp að Urðarvötnum urðu þeir að tjalda og halda kyrru fyrir þar sem vonskuveður var á svæðinu. Björgunarsveitarmenn úr Dalbjörgu voru kallaðir út um hálftvö í dag þar sem skíðagöngumennirnir treystu sér ekki út úr tjaldinu. Voru Súlumenn þá að hafa sig til og klukkutíma síðar voru alls tíu manns frá hvorri sveit á fjórum jeppum, fimm vélsleðum og snjóbíl komnir að Hólsgerði og héldu inn eftir og upp Vatnahjallann.

Sleðamenn fundu svo skíðagöngumennina á miðjum Urðarvötnum og fluttu þá í bílana sem voru að koma upp Vatnahjallann. Þeir voru þá orðnir ískaldir eftir veruna í tjaldinu en hresstust fljótlega eftir að þeir komu í heitan bíl. Björgunarliðið hélt niður til byggða með mennina og var komið klukkan 17 í Grænuhlíð þar sem húsráðendur voru með heitt á könnunni og bakkelsi handa liðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×