Innlent

Mikið tjón í Eden en í lagi með Bóbó

Frá Eden í Hveragerði
Frá Eden í Hveragerði

Sveingbjörg Guðnadóttir verslunarstjóri í Eden í Hveragerði segir allt vera í rúst í búðinni. „Það bara hrundi allt niður sem gat hrunið," segir Sveinbjörg sem segir þennan skjálfta þann stærsta sem hún hefur upplifað. Búðinni var lokað í kjölfarið.

„Það voru nokkrir túristar hérna og einhverjir íslendingar. Fólk forðaði sér strax út og einhverju hlupi. Enginn slasaðist alvarlega og einhverjir hrufluðust á höndum og fleira í þeim dúr," segir Sveinbjörg sem segir tilfinninguna hafa verið verulega óþægilega.

„Það er sérstaklega óþægilegt þar sem búist er við fleiri skjálftum og þessi var líka svo langur."

Sveinbjörg segir tjónið nokkuð en ómögulegt sé að meta það að þessari stundu. „Það er bara eitthvað sem þarf að fara yfir."

Sveinbjörg segir skjálftann líklega hafa verið stutt frá Hveragerði því svo öflugur var hann.

En hvernig fór með apann Bóbó?

„Hann er heill á húfi enda alltaf í stuði. Við pössuðum vel uppá hann."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×