Lífið

Minnir meira á tölur frá Baghdad

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Þráinn Bertelsson.
Þráinn Bertelsson.

„Þetta minnir meira á tölur frá Baghdad en Reykjavík," segir Þráinn Bertelsson, rithöfundur og miðborgarbúi, og rifjar upp að eftir næstsíðustu helgi hafi 13 manns legið í valnum eftir líkamsárásir í umdæmi lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu.

Umræðuefnið er meðal annars könnun ríkislögreglustjóra á reynslu landsmanna af afbrotum og viðhorfi til lögreglunnar en í henni kvaðst þriðjungur svarenda telja sig öruggan í miðborginni að næturlagi um helgar.

„Ég get nú ekki ímyndað mér að þeir þekki miðbæinn mjög vel sem telja sig örugga að vera þar á ferli á nóttunni eða um helgar," segir Þráinn. „Ég er ekki mikið á ferli á nóttunni eins og gefur að skilja svo ég er alveg ókunnur því hve mikil nærvera lögreglunnar er hér á nóttunni. Þeir sjást lítið hér á daginn enda er kannski lítið um afbrot á skrifstofutíma. Þá eru stöðumælaverðir aktífastir og greinilega ekkert upp á þá að klaga því hvergi er hægt að leggja hérna án þess að fá á sig sektarmiða," segir hann enn fremur.

Samúð með lögreglunni

Þráinn segir lögreglulið borgarinnar eiga samúð hans óskipta þegar nærvera þess er umræðuefnið. „Að við skulum telja okkur hafa efni á því, með 13 líkamsárásir um helgar, að vera með 60 sérsveitarmenn á launum við að taka á móti ímynduðum hryðjuverkamönnum og þurfa ekki að ganga vaktir eins og venjulegir lögreglumenn. Af því sést að venjulegir lögreglumenn í miðborg Reykjavíkur eru allt of fáir," segir Þráinn ómyrkur í máli.

„Það er furðuleg áhersla hjá dómsmálaráðuneytinu að fylgjast með erlendum hryðjuverkamönnum og innlendum landráðamönnum með greiningardeildum og öryggislögreglu á meðan vandamálið er bara hérna á götunum, fylleríið og eiturlyfjaneyslan," segir hann.

Hann bætir því þó við að hann dáist að lögreglunni fyrir að takast þó að halda í horfinu og fámennt lögreglulið vinni þar gott starf. „Mér finnst ástandið hafa batnað að sumu leyti, það er til dæmis gert meira af því núna að framfylgja hávaðatakmörkunum frá veitingastöðum. Svo hefur margt lagast af sjálfu sér út af ástandinu eins og það að Reykjavíkurflugvöllur er ekki lengur notaður að næturlagi sem einkaflugvöllur manna sem skreppa til London að fá sér að éta. En það sýnir náttúrulega bara villimennskuna að það skuli hafa verið vandamál um tíma," segir Þráinn.

Fleira skiptir máli en eigin gata

Hann telur það ekkert matsatriði að miðbærinn sé hættulegur. Það sanni fréttir svo lengi sem ekki sé verið að skálda þær upp. „Það virðist vera þjóðfélagsleg samþykkt fyrir því að það sé í lagi að drekka og taka eiturlyf heilu næturnar og ráfa svo um vitstola og berja fólk. Þetta ræður lögreglan ekki við að stoppa heldur þarf þarna ákveðna hugarfarsbreytingu, bæði hjá borgaryfirvöldum og borgarbúum.

Hingað í miðbæinn kemur fullt af fólki sem ekki býr í miðbænum og tekur þá upp breytta hegðun. Það gengur ekki öskrandi og froðufellandi með barsmíðum og grafittíi um götuna sína. Það er ekki bara gatan sem maður býr í sem skiptir máli heldur borgin öll. Ég hef mun meiri áhyggjur af andlegum status fólks sem ekki býr í 101 en þeirra sem þar búa," segir miðbæjarbúinn og rithöfundurinn að skilnaði.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.