Erlent

Svelti hund í hel í nafni listarinnar

Óli Tynes skrifar
Hundurinn var orðinn ræfilslegur og máttfarinn undir lokin. En enginn gaf honum að éta.
Hundurinn var orðinn ræfilslegur og máttfarinn undir lokin. En enginn gaf honum að éta.

Um 400 þúsund manns hafa skrifað undir mótmælalista á netinu gegn því að listamaður frá Costa Rica verði fulltrúi lands síns á listasýningu Miðameríkuríkja í Honduras á þessu ári.

Ástæðan er sú að þegar listamaðurinn Guillermo Vargas hélt sýningu í heimalandinu var gjörningur hluti af sýningunni.

Gjörningurinn fólst í því að flækingshundur var tjóðraður í einu horni sýningarsalarins. Þar var hann látinn svelta í hel.

Vargas bannaði algjörlega að honum væri gefið að éta. Hundurinn veslaðist upp og drapst meðan á sýningunni stóð.

Dýravinir urðu að vonum reiðir og ekki bara út í Vargas. Þeim var fyrirmunað að skilja að ekki hefði einhver gripið í taumana. Starfsfólk í sýningarsalnum eða gestir.

Allavega hafa þeir nú skorið upp herör gegn Vargas á netinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×