Erlent

Múslimasamtök hóta Noregi

Óli Tynes skrifar
Múslimaklerkurinn Krekar fyrir rétti í Noregi.
Múslimaklerkurinn Krekar fyrir rétti í Noregi.

Regnhlífasamtök herskárra múslima í Írak hafa hótað Norðmönnum "miklum sársauka" ef þeir vísa múslimaklerkinum Krekar úr landi. Honum var vísað frá Noregi á þeim forsendum að hann væri ógn við öryggi landsins.

Krekar kom til Noregs frá Írak á níunda áratugnum, sem flóttamaður. Síðar kom í ljós að hann var leiðtogi uppreisnarhópsins Ansar al-islam. Hann braut margsinnis gegn skilyrðunum fyrir hæli í Noregi með því að fara til Norður-Íraks, til þess að stýra aðgerðum.

Hæstiréttur Noregs staðfesti nýlega brottvísun Krekars frá landinu. Hann verður þó ekki sendur þangað í bráð þar sem Norðmenn reka ekki úr landi fólk sem á von á lífláti þegar það kemur heim.

Staðan er því sú að Krekar fær að vera í Noregi þartil ástandið í Írak hefur skánað svo mikið að óhætt þyki að senda hann heim.

Þetta dugar þó ekki fyrrnefndum regnhlífarsamtökum múslima sem segja í yfirlýsingu sem send var frönsku fréttastofunni AFP að það yrði mjög sársaukafullt fyrir Norðmenn ef Krekar fengi ekki að búa þar eins lengi og hann vildi.

Innan þessara samtaka eru meðal annars Islamski herinn, Mujahedin herinn og hinn vopnaði armur samtakanna Ansar al-Sunna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×