Erlent

Grænfriðungar herja á japanska hvalveiðiflotann

Japanair hafa málað orðið Rannsóknir risastórum stöfum á  hvalveiðiskip sín.
Japanair hafa málað orðið Rannsóknir risastórum stöfum á hvalveiðiskip sín.

Grænfriðungar tilkynntu í morgun að þeir hefðu fundið japanska hvalveiðiflotann í Suður Íshafi. Samtökin hafa leitað skipanna í tíu daga.

Grænfriðungarnir sigldu skipi sínu, Esperanza, að japanska hvalveiðiskipinu Júsjín Marú og lásu skipverjum pistilinn. Japanska skipið hélt undan og hófst þá mikill eltingaleikur.

Japönsku hvalveiðiskipin eru ekki að veiðum sem stendur en Grænfriðungarnir ætla að trufla þær eins og þeir geta um leið og byrjað verður að veiða.

Það gera þeir yfirleitt með því að sigla á gúmmíbátum á milli hvalveiðiskipanna og hvalanna sem þau eru að eltast við.

Búast má við talsverðum átökum því japönsku sjómennirnir eru ekki vanir að taka íhlutun Grænfriðunga vinsamlega.

Áströlsk stjórnvöld sendu ísbrjót í leit að hvalveiðiflota Japana í síðustu viku til að hafa eftirlit með honum og afla gagna um hvalveiðarnar.

Skip Ástrala er væntanlegt á svæðið eftir helgi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×