Erlent

Morðingi verður ráðherra

Óli Tynes skrifar

Veturinn 2004 myrti Rússinn Vitalij Kalojev danska flugumferðarstjórann Peter Nielsen. Tveim árum áður hafði Nielsen verið í flugturni í Sviss þegar rússnesk leiguflugvél og fragtþota frá DHL rákust saman.

Meðal þeirra sem fórust með rússnesku vélinni voru fimmtíu og tvö skólabörn. Kalojev átti tvö þessara barna. Auk þess fórst eiginkona hans með vélinni.

Kalojev fór á heimili Nielsens í Sviss og notaði hníf til þess að myrða hann fyrir framan eiginkonu hans og þrjú börn. Kalojev var dæmdur í átta ára fangelsi en látinn laus á síðasta ári eftir að hafa afplánað tvo þriðju af dóminum.

Hann sneri heim og var tekið þar sem hetju. Hann hefur nú verið skipaður aðstoðar húsnæðismálaráðherra í Norður-Ossetíu.

Rannsóknarnefnd flugslysa komst að þeirri niðurstöðu að Peter Nielsen hefði ekki átt sök á því að flugvélarnar rákust saman.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×