Viðskipti erlent

Lækkun á evrópskum hlutabréfamörkuðum

Ben Bernanke, aðalseðlabankastjóri Bandaríkjanna.
Ben Bernanke, aðalseðlabankastjóri Bandaríkjanna. Mynd/AFP

Gengi hlutabréfa hefur almennt lækkað á hlutabréfamörkuðum í Evrópu þrátt fyrir hækkun á asískum mörkuðum. Útlitið var hins vegar ekki bjart framanaf í Japan en Nikkei-vísitalan féll um tæp þrjú prósent við upphaf viðskiptadagsins og virtust asískir markaðir almennt á niðurleið.

Hlutabréfavísitölur hafa sömuleiðis lækkað á Norðurlöndunum í dag, eða í kringum prósentið. Mesta lækkunin er hins vegar í kauphöllinni í Ósló í Noregi en aðalvísitalan þar í landi hefur fallið um rúm þrjú prósent í dag og um 20 prósent frá áramótum.

Fjárfestar tóku hins vegar við sér undir lokin.

Talsverð lækkun var á gengi hlutabréfa í Bandaríkjunum í gær þrátt fyrir að Ben Bernanke, aðalseðlabankastjóri landsins, hefði sagt bankann ætla að beita sér gegn samdrætti í einkaneyslu og blása lífi í hjól efnahagslífsins. Bandarísk stjórnvöld þykja sömuleiðis afar jákvæð fyrir ýmsum mótvægisaðgerðum gegn lausafjárþurrð sem plagað hefur fjármálaheiminn upp á síðkastið.

Líklegt þykir að snörp lækkun stýrivaxta samhliða skattalegum ívilnunum verði beitt, að mati fjármálaskýrenda í samtali við Bloomberg-fréttaveituna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×