Innlent

Ólíklegt að Bobby verði jarðsettur á Þingvöllum

Bobby Fischer.
Bobby Fischer.

Engin ákvörðun hefur verið tekin um hvar jarðsetja skuli skáksnillinginn Bobby Fischer.

Stuðningshópur hans vill að hann verði jarðsettur í þjóðargrafreit Íslendinga á Þingvöllum. Lúðvík Bergvinssonar alþingismaður, sem situr í Þingvallanefnd telur ólíklegt að svo verði.

Í samtali við fréttastofu í morgun sagði Lúðvík að þjóðargrafreiturinn væri einkum ætlaður þeim sem í gegnum lífshlaup sitt hafi verið sverð, sómi og skjöldur fyrir land og þjóð.

Hann kvaðst þó tilbúinn að ræða málið ef Björn Bjarnason, formaður nefndarinnar vilji taka málið upp þar.

Aðeins tveir menn hvíla í þjóðargrafreitnum, þeir Einar Benediktsson og Jónas Hallgrímsson.

Í raun er það þó ekki í höndum Íslendinga að ákveða hvort Fischer verður jarðsettur hér á landi heldur nánustu aðstandenda hans.

Bobby Fischer átti unnustu sem er væntanleg hingað til lands á morgun frá Japan og ætla stuðningsmennirnir að leggja tillögur sínar fyrir hana.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×