Erlent

Gervihnöttur stefnir á jörðina

Bandarískur gervihnöttur er stjórnlaus og stefnir á jörðina, að því er BBC greinir frá. Hnötturinn mun vera tiltölulega stór og taldar eru líkur á því að hann innihaldi eldsneyti sem sé eitrað og hættulegt komist fólk í snertingu við það.

Hvíta húsið hefur gefið frá sér yfirlýsingu vegna málsins og þar á bæ segjast menn fylgjast grannt með hnettinum en talið er að hann komi til jarðar í lok febrúar eða byrjun mars.

Talsmaður Hvíta hússinns sagði litlar líkur á því að tjón hljótist af hnettinum þegar hann skellur á jörðinni en talsmaður Öryggisnefndar Bandaríkjanna sagði í viðtali við blaðamann að verið væri að móta áætlanir um hvernig hægt verði að draga úr hættunni.

Ekki er loku fyrir það skotið að menn reyni að skjóta hnöttinn niður með eldflaug. Gervihnötturinn er sagður vega um 20 þúsund pund og vera á stærð við litla rútu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×