Erlent

Kínverjar vilja í Heimskautsráðið

Frá Norðurpólnum.
Frá Norðurpólnum.

Stór lönd eins og Kína, Ítalía, Stóra-Bretland, Spánn og Frakkland vilja taka þátt í að stýra þróun á nýtingu þeirra miklu auðlinda sem finnast á Heimskautssvæðinu, og stjórna umhverfisverndarstarfi í norðri.

Frá þessu var skýrt í norrænum fréttum norska ríkisútvarpsins, NRK. Löndin vilja taka þátt í alþjóðlegum samstarfshópi Heimskautsráðsins, er haft eftir Karsten Klepsvik heimskautsráðgjafa hjá norska utanríkisráðuneytinu.

"Það kostar okkur mikla vinnu að hafa þessi lönd með í vinnuhópunum, en þau hafa einnig mikið til málanna að leggja, bæði hvað varðar rannsóknagetu og aðföng. Kína hefur til að mynda tilkynnt að auknu fjármagni verði varið til málaflokksins. Umræður um hvernig aðkoma landanna inn í ráðið verður, munu verða teknar upp á Solver-fundinum í vor. Auk fullrar aðildar með neitunarvaldi, væri hægt að hugsa sér nokkrar aðrar leiðir, til að mynda gætu löndin átt aðild sem ráðgjafar án atkvæðisréttar," Segir Klepsvik.

Heimskautsráðið var stofnað árið 1996. Aðild eiga Utanríkisráðuneyti Norðurlandanna, Bandaríkjanna, Kanada og Rússlands og fulltrúar þeirra frumbyggja sem búa á svæðinu. Noregur fer með formennsku í ráðinu 2006-2008. Skrifstofa ráðsins er í Tromsø.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×