Erlent

Smyglarar með tárin í augunum

Óli Tynes skrifar
Smyglararnir gátu grætt þúsundir dollara á nóttu, á jarðgöngum sínum.
Smyglararnir gátu grætt þúsundir dollara á nóttu, á jarðgöngum sínum.

Palestinskir smyglarar á Gaza ströndinni eru í öngum sínum. Þeir hafa tapað stórfé síðan liðsmenn Hamas sprengdu upp múr á landamærunum að Egyptalandi.

Tugþúsundir Palestínumanna þyrptust yfir til Egyptalands til þess að kaupa nauðsynjar. Þeim hefur fram til þessa verið smyglað um jarðgöng sín undir landamærin.

Smyglararnir hafa grætt þúsundir dollara á nóttu við að smygla öllu sem nöfnum tjáir að nefna frá Egyptalandi. Þeir hafa smyglað matvælum, vopnum og jafnvel fólki.

Abu Yassin, sem á ein jarðgöngin segir að einn viðskiptavina hans hafi hætt við 150 þúsund dollara verkefni vegna þess að hann komst sjálfur yfir landamærin.

Abu Yassin segir að um 200 jarðgöng liggi undir landamærum Gaza og Egyptalands. Vopnaflutningar séu miklir, enda sé jafn auðvelt og ódýrt að finna vopn á Gaza ströndinni og að kaupa tómata.

Bæði Ísraelar og Bandaríkjamenn hafa þrýst á Egypta um að loka þessum jarðgöngum, ekki síst vegna allra vopnaflutninganna. Egyptar hafa ekki orðið við því.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×