Viðskipti erlent

Microsoft vill kaupa Yahoo

Jerry Yang, forstjóri og annar stofnenda Yahoo. Microsoft er sagt hafa áhuga á að kaupa fyrirtækið fyrir 2.890 milljarða íslenskra króna.
Jerry Yang, forstjóri og annar stofnenda Yahoo. Microsoft er sagt hafa áhuga á að kaupa fyrirtækið fyrir 2.890 milljarða íslenskra króna. Mynd/AFP

Bandaríski hugbúnaðarrisinn Microsoft er sagður hafa lagt fram tilboð í netveituna Yahoo upp á 44,6 milljarða bandaríkjadala, jafnvirði 2.890 milljarða íslenskra króna, að því er breska ríkisútvarpið hermir.

Yahoo hefur ekki átt góðu gengi að fagna upp á síðkastið. Terry Semel, sem stóð upp úr forstjórastólnum fyrir Jerry Yang, einum af stofnendum netveitunnar, á síðasta ári, hefur nú hætt alfarið störfum hjá Yahoo.

Helsti vandi fyrirtækisins liggur í því að netleitarrisinn Google hefur tekið æ stærri skerf af markaðshlutdeild Yahoo á síðastliðnum árum. Yahoo keyrir afkomu sína einna helst áfram af auglýsingatekjum sem samhliða minni markaðshlutdeild hefur dregist saman og var undir væntingum á síðasta ári.

Microsoft hefur í nokkurn tíma verið orðað við Yahoo en fyrrnefnda fyrirtækið telur að með kaupunum geti það blásið í seglin gegn helstu keppinautum, ekki síst Google, sem hefur verið nær einráða á bandarískum netauglýsingamarkaði.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×