Fótbolti

Hammarby á eftir Árna Gauti

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Árni Gautur Arason í leik með Vålerenga á síðasta tímabili.
Árni Gautur Arason í leik með Vålerenga á síðasta tímabili. Mynd/Scanpix

Sænska úrvalsdeildarliðið Hammarby er á höttunum eftir Árna Gauti Arasyni landsliðsmarkverði eftir því sem kemur fram í sænskum fjölmiðlum.

Eurosport.se hefur eftir nánum vini Árna Gauts að Hammarby hafi nýlega sett sig í samband við hann.

Í gær fullyrtu sænskir fjölmiðlar að það væri nánast frágengið að Rami Shaaban, markvörður Fredrikstad í Noregi, væri búinn að semja við Hammarby. En yfirmaður íþróttamála hjá Hammarby, Per Morten Haugen, sagði að það væri langt í frá tilfellið.

Fjölmiðlafulltrúi Hammarby vildi hins vegar ekkert um Árna Gaut segja í samtali við fyrrnefnda vefsíðu í gær.

Árni Gautur hefur verið án félags síðan að samningur hans við norska úrvalsdeildarliðið Vålerenga rann út í haust. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×