Fótbolti

Árni Gautur: Ekkert heyrt frá Hammarby

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Árni Gautur í leik með Vålerenga á síðasta tímabili.
Árni Gautur í leik með Vålerenga á síðasta tímabili. Mynd/Scanpix

Árni Gautur Arason segir í samtali við Vísi að hann hafi ekkert heyrt frá forráðamönnum Hammarby í Svíþjóð.

„Ég veit ekkert meira en það sem ég hef séð á netinu," sagði Árni Gautur. Í gær sagði eurosport.se að Hammarby væri með Árna Gaut í sigtinu og hafði eftir „nánum félaga" hans að Hammarby væri búinn að hafa samband.

Árni Gatur hefur verið án félags síðan að samningur hans við Vålerenga rann út í haust. Hann ákvað að framlengja ekki samning sinn við félagið.

„Það hafa ýmsar þreifingar verið í gangi undanfarið og hefði ég svo sem getað gengið frá mínum málum fyrir einhverjum vikum síðan. En ég ákvað að bíða," sagði hann og segist ekki hafa áhyggjur af því að hann sé að falla á tíma.

„Nei, alls ekki. Þar sem ég er samningslaus hefur félagaskiptaglugginn ekki áhrif á mig. Ég er því ekki farinn að örvænta."

„En það er ómögulegt að segja hvar ég komi til með að spila. Það hafa komið fyrirspurnir víða að ég reyni ég að skoða allt með opnum huga. En það er alltaf langur vegur frá því að félag sýni áhuga þar til að samningstilboð komi. Ég reyni bara að vera þolinmóður."

Norska 1. deildarliðið Odd Grenland sýndi Árna Gauti áhuga fyrir fáeinum vikum.

„Ég vissi af áhuga þeirra en hef ekkert verið í sambandi við þá sjálfur. Það er ekki fyrsti kostur hjá mér að fara í næstefstu deild hér í Noregi."


Tengdar fréttir

Hammarby á eftir Árna Gauti

Sænska úrvalsdeildarliðið Hammarby er á höttunum eftir Árna Gauti Arasyni landsliðsmarkverði eftir því sem kemur fram í sænskum fjölmiðlum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×