Erlent

Lækning við kvefi á næsta leiti

Breskir vísindamenn eru nú vongóðir um að fundist geti lækning við kvefi. Þeim tókst nýlega að smita erfðabreytta mús með kvefi þannig að auðveldara verður í framtíðinni að prófa ný kvefmeðul.

Kvef er sjúkdómur sem aðeins herjar á menn og simpansa. Því þykja það tímamót að það tókst að smita músina með kvefi. Það voru vísindamenn við Imperial háskólann í London sem tókst að búa til hina erfðabreyttu mús.

Prófessorinn Sebastian Johnston stjórnaði þessu verki og hann segir að auk kvefrannsókna muni erfðabreyttar mýs einnig gangast vel í rannsóknum á nýjum lyfjum gegn öðrum öndunarfærasjúkdómum eins og asma.

Það var breska heilbrigðisráðuneytið sem fjármagnaði tilraunir vísindamannanna og þar á bæ eru menn að vonum ánægðir með árangurinn enda talið að hann geti leitt til tímamóta í rannsóknum á öðrum sjúkdómum og kvillum.

Vírusinn sem veldur kvefi var uppgvötvaður fyrir 50 árum en það hefur ætíð verið erfiðleikum bundið að rannsaka hann þar sem tilraunadýr hafa ekki legið á lausu. Að vísu var notast við sjálfboðaliða við slíkar rannsóknir á síðustu öld en þeim var hætt árið 1989 þar sem árangur af þeim var nær enginn. Nú þegar hægt er að smita mýs er sá hjalli að baki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×