Innlent

Illa farið með hesta

Óli Tynes skrifar

Veðrið hefur verið óblítt við útigangshross undanfarnar vikur. Bæði mikil óveður og svo snjókoma og frost með tilheyrandi jarðbanni.

Og alltaf virðast vera einhverjir sem nenna ekki að eiga dýr undir slíkum kringumstæðum. Þau eru látin ganga sjálfala, það er að segja þau eru látin svelta.

Héraðsdýralæknum hafa að undanförnu borist fjölmargar ábendingar um illa haldin hross. Samkvæmt regluferð um aðbúnað hrossa eiga þau að hafa aðgang að skjóli, fóðri og vatni.

Gunnar Örn Guðmundsson, héraðsdýralæknir sagði í samtali við fréttastofuna að ef þeir sannreyndu illa meðferð á hrossum væri haft samband við eigendurna og þeim gerð grein fyrir skyldum sínum.

Ef því er ekki sinnt og ástandið verður slæmt er hægt að grípa í taumana með því að lóga dýrum sem eru illa farin og koma öðrum í hús og fóður. Það er viðkomandi sveitarfélag sem annast um slíkt og rukkar svo eigandann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×