Viðskipti erlent

Hækkun á evrópskum hlutabréfamörkuðum

Verðbréfamiðlarar að störfum í kauphöllinni í Frankfurt í Þýskalandi.
Verðbréfamiðlarar að störfum í kauphöllinni í Frankfurt í Þýskalandi. Mynd/AFP

Hlutabréfamarkaðurinn hefur farið vel af stað í Evrópu í dag eftir fremur slappa viku. Gærdagurinn var sérstaklega slæmur en fjárfestar voru almennt óánægðir með stýrivaxtaákvörðun bæði í Bretlandi og á evrusvæðinu.

Breski seðlabankinn lækkaði vexti sína um 25 punkta í gær en evrópski bankinn ákvað að halda þeim óbreyttum í fjórum prósentum. Jean-Claude Trichet, seðlabankastjóri evrópska seðlabankans, sagði hins vegar ekki loku fyrir það skotið í gær, að bankinn komi til móts við þrengingar á fjármálamörkuðum með lækkun vaxtanna.

FTSE-vísitalan í Bretlandi hefur það sem af er degi hækkað um rúmt prósentustig, Dax-vístalan í Þýskalandi um 1,46 prósent og hin franska Cac-40 um 1,16 prósent.

Norrænu hlutabréfamarkaðirnir hafa sömuleiðis farið vel af stað. Þar af hefur hlutabréfavísitalan í Helsinki í Finnlandi hækkað mest, um 1,6 prósent en minnst í kauphöllinni í Ósló í Noregi, sem hefur hækkað um 0,29 prósent.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×