Innlent

Góðar líkur á nýjum kjarasamningi í vikunni

Jákvæður tónn er í talsmönnum beggja samningsaðila á vinnumarkaðnum eftir fund í Karphúsinu síðdegis í gær og taldar góðar líkur á að skrifað verði undir nýja kjarasamninga þegar líður á vikuna. Bæði Alþýðusambandið og Samtök atvinnulífsins hyggjast þó fyrst banka upp á hjá ríkisstjórninni til að knýja á um framlag stjórnvalda.

Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, metur stöðuna eftir fundinn hjá ríkissáttasemjara í gær svo að samningar ættu að geta klárast í vikunni. Spurður um þetta í morgun sagði Sigurður Bessason, talsmaður Flóabandalagsins og formaður Eflingar, að nú væru betri líkur en verið hefðu undanfarið.

Ljóst er þó að menn munu ekki skrifa undir án þess að stjórnvöld komi að málum. Verkalýðsforystan mun þrýsta á atriði eins og barnabætur, vaxtabætur og húsnæðisbætur og vinnuveitendur hafa sínar óskir til ríkisstjórnarinnar. Þeir telja það illa horfa í atvinnumálum að ríkið verði að greiða fyrir stóriðjuframkvæmdum og flýta opinberum framkvæmdum.

Helsta krafa þeirra snýr þó að vaxtastefnu Seðlabankans, sem þeir telja bitna illa á atvinnulífinu. Húsnæðismál lágtekjufólks verða uppi á borðum og þá vilja atvinnurekendur fá loforð um að hið opinbera fylgi sömu kjarastefnu gagnvart sínum starfsmönnum og samið verður um á almenna vinnumarkaðnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×