Innlent

Vilhjálmur situr sem fastast - í bili

Allt bendir til þess að Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson víki ekki til hliðar á næstunni sem oddviti sjálfstæðismanna í borginni. Ekki er þó víst að hann taki við borgarstjórastólnum að ári.

Algjör þögn ríkir innan borgarstjórnarflokks sjálfstæðismanna og meðal forystumanna flokksins um stöðu og framtíð Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar sem oddvita. Aðeins hefur náðst í einn borgarfulltrúa í dag, Kjartan Magnússon, sem vildi þó ekki segja annað um málið en að Vilhjálmur njóti enn trausts innan flokksins. Geir H. Haarde vildi ekki tjá sig um málið. Ekki hefur náðst í Vilhjálm né aðra borgarfulltrúa þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir.

Samkvæmt heimildum fréttastofu eru margir sjálfstæðismenn á þeirri skoðun að Vilhjálmur eigi að víkja. Vonast er til þess að hann taki sjálfur frumkvæði í því máli. Vilhjálmur hefur íhugað stöðu sína um helgina og meðal annars rætt við Geir H. Haarde í því samhengi.

Samkvæmt heimildum fréttastofu er öruggt að Vilhjálmur muni sitji áfram sem oddviti flokksins. Þetta mun þó vera tímabundin lausn samkvæmt sömu heimildum og mögulegt að hann endurmeti stöðu sína eftir einhvern tíma. Því er ekki víst að hann taki við borgarstjórastólnum aftur að ári.

Staðan er nokkuð snúin enda óvíst hvaða áhrif þetta kann að hafa á meirihlutasamstarfið í borgarstjórn. Ekki er víst að nýjum oddvita Sjálfstæðisflokksins hugnist áframhaldandi samstarf við Ólaf F. Magnússon.

Ólafur F. Magnússon borgarstjóri vildi þó ekki tjá sig um málið þegar fréttastofa hafði samband við hann í morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×