Innlent

Sex mánaða fangelsi fyrir kókaínsmygl

Kona var í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun dæmd til sex mánaða fangelsisvistar, þar af fjóra mánuði skilorðsbundna, fyrir að reyna að smygla til landsins 113 grömmum af kókaíni. Þá var hún einnig sakfelld fyrir þjófnað.

Konan var að koma frá París í apríl árið 2006 þegar hún var gripin á Keflavíkurflugvelli með fíkniefnin innvortis. Hún játaði brot sín.

Fram kemur í dómnum að hún hafi farið ótilneydd til Spánar og hafi ætlað að flytja inn eitt kíló af kókaín og hagnast á því um eina milljón króna. Henni hafi átt að vera ljóst að efnin voru ætluð til sölu- og dreifingar hér á landi. Um sterkt efni hafi verið að ræða og aðstæður sem snertu ekki konuna hafi orðið til þess að hún hafði með sér aðeins lítinn hluta af því magni sem til stóð.

Litið var til þess að konan væri ung og að tæp tvö ár væru frá brotinu. Enn fremur hefði konan snúið við blaðinu og verið til sjós sem háseti í heilt ár. Þótt dómnum því rétt að skilorðsbinda tvo þriðju refsingar hennar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×