Innlent

Virðist sem útigangsfólk hafi valdið heitavatnstjóni

MYND/Stöð 2

Hús á Akureyri er talið ónýtt eftir að heitt vatn rann um húsið. Svo virðist sem útigangsfólk hafi valdið tjóninu.

Slökkviliðið fékk tilkynningu frá vegfaranda eldsnemma í morgun um að vatnsgufur stæðu út úr húsinu Hafnarstræti 86. Þegar slökkviliðsmenn komu á vettvang var aðkoman slæm og hafði heitt vatn greinilega flætt lengi um húsið. Það hefur staðið mannlaust undanfarið en grunur leikur á að útigangsfólk eða fíkniefnaneytendur hafi hreiðrað um sig í húsnæðinu tímabundið. Óvíst er hvort vatnstjónið hefur hlotist af ásetningi eða gáleysi fólksins.

Slökkviliðinu gekk greiðlega að dæla burt vatninu en gólf og veggir í húsinu eru vatnssósa. Slökkviliðsmaður sem fréttastofa Stöðvar 2 ræddi við sagði að að húsið hefði verið illa farið fyrir vatnstjónið og væri nú eflaust ónýtt. Lögregla hafnaði beiðni Stöðvar 2 um myndatöku innanhúss þar sem ekki hafði náðst í eigandann að húsinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×