Erlent

Farþegavél á fimmföldum hljóðhraða

Óli Tynes skrifar
A2 er mikið ferlíki, en býsna rennileg.
A2 er mikið ferlíki, en býsna rennileg.

Breska fyrirtækið Reaction Engines, í Oxford hefur teiknað 300 sæta flugvél sem á að fljúga á 6.400 kílómetra hraða. Það er fimmfaldur hljóðhraði.

A2 nefnist gripurinn og eiginlega meira rakettu en flugvél. Vegna hins mikla hita sem myndast við núning á fimmföldum hljóðhraða verða engir gluggar á vélinni.

Allt í sambandi við þessa vél er stórbrotið. Hún á að fljúga í 100 þúsund feta hæð, en þotur dagsins í dag eru á milli í á milli 30 og 40 þúsund fetum. Mótorarnir munu ganga fyrir fljótandi vetni og maskínan verður því umhverfisvæn.

Lengdin er 132 metrar, sem er helmingi lengra en breiðþotur nútímans. Forstjóri Reaction Engines segir að þeir hafi sannreynt að hægt sé að smíða þessa vél. Markaðurinn verði hinsvegar að ráða því hvort og hvenær hún fer í loftið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×