Innlent

Forsetinn fundaði með Soniu Gandhi

Sonia Gandhi.
Sonia Gandhi.

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, átti á laugardag fund með Soniu Gandhi, leiðtoga Kongressflokksins, á heimili hennar. Var það við hins svokallaða Delí-leiðtogafundar.

Fram kemur í tilkynningu frá forsetaembættinu að Sonia Gandhi hafi fagnað þeim árangri sem náðst hafi með aukinni samvinnu Indlands og Íslands frá því hún kom til Íslands fyrir nokkrum árum sem gestur forseta og frá því þáverandi forseti Indlands, dr. A.P.J. Abdul Kalam, kom í opinbera heimsókn til Íslands árið 2005.

Sonia Gandhi lýsti miklum áhuga á samvinnu íslenskra og indverskra jöklafræðinga í rannsóknum á eyðingu jökla í Himalayafjöllum. Að því koma einnig fleiri sérfræðingar frá öðrum löndum. Segir í tilkynningunni að rannsóknir á Himalayafjöllunum hafi verið vanræktar um árabil. Það er sérstaklega alvarlegt í ljósi þess að bráðnun Himalayajökla vegna loftslagsbreytinga geti leitt til mestu umhverfishörmunga 21. aldar enda sé fæðuöflun og vatnsbúskapur um 700 milljóna Indverja háður þessum jöklum.

Forsetinn og Gandhi ræddu einnig um árangur Delí-leiðtogafundarins sem er þegar orðinn áhrifaríkur vettvangur fyrir víðtækt samráð um sjálfbæra þróun og bætt lífsskilyrði þess meginhluta mannkyns sem býr á suðurhveli jarðar. Alþjóðlegt orðspor dr. Pachauri, stofnanda Delífundanna, sem nýlega tók við friðarverðlaunum Nóbels, hafi og gefið þeim aukinn sess.

Forseti sat einnig fund í Þróunarráði Indlands sem haldinn var í tengslum við leiðtogafundinn. Þar var rætt um hugsanlegt samstarf við Þróunarráð Kína, en það þróunarráð er líkt og hið indverska skipað auk heimamanna sérfræðingum og áhrifafólki víða að úr veröldinni. Markmiðið væri að gera ítarlega úttekt á þróun þessara tveggja fjölmennustu ríkja heims fram til ársins 2050.

Meðal annars yrði fjallað um áhrif aukins hagvaxtar á orkuþörf, fæðuframboð, vatnsbúskap, nýtingu auðlinda og aðra þætti sem munu hafa afgerandi áhrif á hagkerfi heimsins og afkomu alls mannkyns. Þá munu Indland og Kína að öllum líkindum vera orðin helstu drifkraftar í efnahagskerfi veraldar og telja ríflega þriðjung jarðarbúa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×