Innlent

Staða Vilhjálms hefur veikst

„Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjavík hefur fengið á sig ákveðna ágjöf og tekið vissa dýfu við þessar aðstæður. Það hefur hinsvegar ekki komið fram á landsvísu og ég vona að það gerist ekki," sagði Geir H Haarde forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins niður í Alþingishúsi rétt í þessu.

Geir ræddi við blaðamenn um mál Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík og sagði skynsamlegt hjá Vilhjálmi að fara yfir stöðuna með tilliti til þess hvort hann ætlaði að taka við embætti borgarstjóra. Hann sagðist ekki efast um að sú niðurstaða yrði í þágu borgarinnar.

Geir sagði einnig að hann og aðrir forystumenn flokksins myndu styðja Vilhjálm en viðurkenndi að það væri rétt sem fram kom í máli Vilhjálms að staða hans hefði veikst. „Það er ekki hægt að víkja honum úr sæti og ég styð hann meðan hann gegnir þessu starfi."

Geir vildi ekki tala um hvað hefði farið á milli þeirra Vilhjálms í persónulegum samtölum en sagði REI skýrsluna ekki leiða neitt nýtt í ljós.

Hann sagði þó að Vilhjálmi hefði orðið á ákveðin mistök í ákveðnum sjónvarsþætti. Hann væri þó sjálfur búinn að gera grein fyrir því.

Geir vildi ekki svara því hvort hann styddi Vilhjálm í að verða borgarstjóri Reykvíkinga eftir rúmt ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×