Innlent

Gera ráð fyrir hóteli en ekki sjúkralegurýmum

Vísi hefur borist yfirlýsing frá Heilsumiðstöð Íslands. Hún er svohljóðandi

„Í kvöldfréttum Stöðvar tvö í gær var fyrirhuguð Heilsu- og lækningamiðstöð í Vetrarmýrinni í Garðabæ tekin til umfjöllunar. Þar var miðstöðin ranglega kölluð einkasjúkrahús sem helst væri ætlað útlendingum. Verkefninu var ranglega lýst í fréttinni.

Um er að ræða að setja saman á einn stað lækningastarfsemi líkt og er til staðar í dag, sem og aðra heilbigðisstarfsemi svo sem sjúkraþjálfun, tannlækna, ofl. jafnframt því að hafa heilsurækt og heilsutengda starfsemi í húsinu.

Þannig er ekki ætlunin að byggja einkasjúkrahús. Alrangt er að beðið sé eftir leyfum frá Heilbrigðisráðuneytinu varðandi starfsemina, enda hefur ekki verið sótt um slík leyfi þangað. Heilsumiðstöð Íslands vinnur enn að undirbúningi verkefnisins. Þau samskipti sem átt hafa sér stað við heilbrigðisráðuneytið eru í formi kynninga fyrir bæði fyrrverandi og núverandi heilbrigðisráðherra.

Gert er ráð fyrir hóteli á svæðinu sem er einu svefnplássin fyrirhuguð í dag. Vangaveltur um möguleg legurými í náinni framtíð eru því ekki á rökum reistar þar sem ekki eru neinar heimildir fyrir slíku í dag."

Undir yfirlýsinguna rita Oddur Steinarsson læknir, Sturla B. Johnsen læknir og Steinarr Björnsson læknir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×