Innlent

Undiralda fordóma til staðar í þjóðfélaginu

Vefsvæðið leit svona út gær áður en að því var læst.
Vefsvæðið leit svona út gær áður en að því var læst. MYND/Stöð 2

Undiralda fordóma er til staðar í þjóðfélaginu, en það staðfestir vefsvæði sem stofnað var og kallað félag gegn Pólverjum á Íslandi og sjö hundruð unglingar skráðu sig inn á. Þetta segir forstöðumaður frístundamiðstöðvar hjá ÍTR.

Í fréttum okkar í gær sögðum við frá vefsvæðinu en þar var farið niðrandi orðum um Pólverja sem hér eru búsettir. Í morgun var búið að færa vefsvæðið og læsa því. Flestir þeirra sem skráðu sig þar inn og skrifuðu voru unglingar.

Fréttastofan leitaði í dag viðbragða hjá aðilum sem vinna með unglingum vegna málsins. Einn þeirra er Jóhannes Guðlaugsson, forstöðumaður frístundamiðstöðvar hjá Íþrótta og tómstundaráði Reykjavíkur. Jóhannes segist upplifa aukna kynþáttafordóma meðal þessa hóps og að vefsvæðið staðfesti að undiralda fordóma sé til staðar í þjóðfélaginu sem ungmennin séu að endurspegla. Hann telur ríka ástæðu fyrir þá sem vinna með börn og unglinga að grípa inn í svona umræðu og segir að það verði gert.

Soffía Pálsdóttir, skrifstofustjóri tómstundamála hjá ÍTR, segir málið verða skoðað í samvinnu við skólana og kannað hvort auka fræðslu og umræðu um kynþáttafordóma. Soffía bendir á að foreldrar verði að gera sér grein fyrir sinni ábyrgð í málinu. Einar Skúlason, framkvæmdastjóri Alþjóðahús, tekur í sama streng og telur að unglingarnir grípi fordóma sína mikið til úr umhverfinu en fordómarnir séu ekki sjálfsprottnir.

Einar segir að með vaxandi fjölda innflytjenda virðist sem að andúð á þeim sé að aukast og því sé fræðsla mjög mikilvæg. Það að ungmennin taki sig saman og stofni svona hóp sýni að þeim liggi eitthvað á hjarta. Því sé mikilvægt að skapa vettvang þar sem þau geti rætt málin og hægt sé að fræða þau.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×