Erlent

Ekki eitrað fyrir Napoleon

Óli Tynes skrifar

Það hefur lengi verið haft fyrir satt að Bretar hafi myrt Napoleon Bonaparte með arseniki, þar sem hann var í útlegð á eynni Sankti Helenu í Suður-Atlantshafi. Þar lést keisarinn fyrrverandi árið 1821, aðeins 51. árs gamall.

Síðari tíma rannsóknir á hári hans leiddu í ljós mikið magn af arseniki. Ítalska kjarnorkurannsóknarstofnunin hefur nú gert nýja rannsókn og komist að þeirri niðurstöðu að sögusagnir um eiturmorð eigi sér enga stoð.

Við rannsókn sína báru ítölsku vísindamennirnir hár Napóleons saman við hár annarra samtíðarmanna.

Meðal annars fyrstu eiginkonu hans og sonar. Niðurstaða þeirra er sú að arsenik í hári fólks fyrir 200 árum hafi almennt verið hundraðfalt meira en mælist í dag.

Það hafi verið eðlilegt ástand á þeim tíma og ekki nein vísbending um vísvitandi eitrun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×