Innlent

Skilorðsbundið fangelsi fyrir að slá mann með hafnaboltakylfu

MYND/Valli

Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi í dag 18 ára karlmann í fjögurra ára skilorðsbundið fangelsi fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás með hafnaboltakylfu.

Maðurinn réðst á annan mann fyrir utan veitingastaðinn Dubliners í Hafnarstræti og sló hann með hafnarboltakylfu í vinstra gagnauga og vinstri handlegg þannig að hann féll í götuna.

Maðurinn játaði sök en bar því við að fórnarlambið hefði átt upptökin og slegið hann í framan. Framburður hans þótti hins vegar ekki trúverðugur og var hann því sakfelldur. Segir í dómnum að maðurinn hafi viðurkennt að hafa beinlínis ætlað að slá kæranda í höfuðið og teljist árás hans sérstaklega hættuleg. Hún hafi verið tilefnislaus og ófyrirleitin.

Hins vegar var horft til þess að maðurinn var aðeins 16 ára þegar árásin átti sér stað og þess að afleiðingar árásarinnar urðu ekki alvarlegar. Auk fjögurra mánaða fangelsis, sem skilorðsbundið er til þriggja ára, var maðurinn dæmdur til að greiða fórnarlambi sínu rúmar hundrað þúsund krónur í skaðabætur.

Maðurinn var einnig sviptur ökuleyfi í fjóra mánuði og gert að greiða 140 þúsund króna sekt fyrir að hafa í fyrrasumar ekið eftir Miklubraut á 165 kílómetra hraða þar sem hámarkshraði var 80 kílómetrar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×