Innlent

Verður aftur forstjóri OR nema það vanti sökudólg

Guðmundur Þóroddsson ætlar að mæta vígreifur í forstjórastól OR 1. apríl næstkomandi.
Guðmundur Þóroddsson ætlar að mæta vígreifur í forstjórastól OR 1. apríl næstkomandi.

Guðmundur Þóroddsson, forstjóri REI, segist ekki eiga von á öðru en að hann taki aftur við forstjórastöðu Orkuveitu Reykjavíkur þann 1. apríl næstkomandi þegar sjö mánaða leyfi hans lýkur.

"Það er ekkert annað í kortunum en að ég taki aftur við mínu gamla starfi 1. apríl. Það hefur enginn rætt við mig um annað. Ekki nema það vanti sökudólg," segir Guðmundur og vísar þar til REI-málsins.

Guðmundur er gagnrýninn á þann gjörning að draga til baka sameiningu REI og Geysis Green Energy. "Það er stóralvarlegt að pólitíkusar geri samning og hætti svo við án þess að gefa fullnægjandi skýringar. Þetta er stærsta klúður Íslandssögunnar að mínu mati. Og orsökin er vandræðagangur í pólitík," segir Guðmundur.

Aðspurður hvort hann hafi áhuga á því að starfa áfram með því fólki sem kom að ákvörðuninni að hafna samruna REI og GGE sagði Guðmundur að allir væru í naflaskoðun. "Þetta jafnar sig allt á endanum."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×