Innlent

Rætt við aðila vinnumarkaðarins á næstu dögum

MYND/Vilhelm

Geir H. Haarde forsætisráðherra á von á því að ríkisstjórnin ræði við aðila vinnumarkaðarins um aðkomu að kjarasamningum á næstu dögum. Þessi orð lét hann falla í utandagskrárumræðu um kjarasamninga og efnahagsmál á Alþingi í dag.

Guðjón Arnar Kristjánsson, formaður Frjálslynda flokksins, var upphafsmaður utandagskrárumræðunnar og benti á að válynd tíðindi væru í efnahagsmálum og hætta væri á alvarlegum samdrætti í hagkerfinu. Á sama tíma væru kjarasamningar lausir og þá gerði Guðjón mótvægisaðgerðir ríkisstjórnarinnar að umtalsefni. Spurði hann hvort ríkisstjórin hygðist ekkert aðhafast í málinu.

Forsætisráðherra sagði efnahags-, atvinnu- og kjaramál vera stöðugt viðfangsefni ríkisstjórnar og Alþingis. Í aðdraganda kjarasamninga væri vandmeðfarnara að ræða um kjaramál og að því þyrfti að huga. Geir benti á að samningsaðilar væru langt komnir og allir hlytu að vona að þau mál yrðu leidd farssællega til lykta. Ríkisstjórnin myndi ekki skorast undan því að ræða við aðila vinnumarkaðarins um hvernig hún gæti liðkað fyrir samningum. Hann ætti von á því að rætt yrði við samningsaðila um það hvernig ríkisstjórnin og Alþingi gætu komið að þessum málum á næstu dögum.

Geir benti á að staða ríkissjóðs og lífeyrissjóðanna væri sterk og það viðurkenndu allir menn sem hefðu áhuga á að leiða sannleikann í ljós. Þá sagði hann mótvægisaðgerðir hafa verið undirbúnar og þær væru að skila sér. Ríkisstjórnin væri jafnframt reiðubúin að endurskoða þær er þurfa þykir. ,,Ég legg áherslu á að í aðdraganda kjarasamninga verði allir að tala varlegar en hitt," sagði forsætisráðherra.

Ríkisstjórnin sýnir sinnuleysi

Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri - grænna, sagði sinnuleysi ríkisstjórnarinnar í kjaramálum ekki hafa farið fram hjá neinum. Það hlyti að teljast ábyrgðarhlutur við þesar aðstæður að taka ekki þátt í því að bæta kjör þeirra verst settu og ná tökum á efnahagsástandinu. Þá gagnrýndi hann framlag Samtaka atvinnulífsins í kjaraviðræðunum þess efnis að ríkisstjórnin ætti ekki að standa í vegi fyrir uppbygginu stóriðju. Spurði hann Samfylkinguna hvort hún væri sátt við sinnuleysi forsætisráðherra og fjármálaráðherra um að ríkisstjórnin skili auðu varðandi þá lægst launuðu og kennara.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra mótmælti því að ríkisstjórnin sýndi sinnuleysi í kjaramálum. Það mætti færa rök fyrir því að ríkisstjórnin ætti að taka kjaraviðræður í fangið en hún væri ekki þeirrar skoðunar. Ríkisstjórnin ætti að fylgjast með og koma inn í kjaraviðræðurnar þegar þurfa þætti og útlit væri fyrir að sá tímapunktur væri nú um helgina.

Guðni Ágústsson, varaformaður Framsóknarflokksins, sagði verðbólguna vera hið stóra vandamál og það væri hættulegt fyrir íslenskt verkafólk ef víxlhækkanir launa og verðbólgu yrðu að veruleika. Guðni sagði alla kjarasamninga í óvissu og ábyrgðarlaust að ganga fram við þessar aðstæður og bjóða einni stétt kauphækkun í dag og annarri á morgun. Stóra málið væri verðbólgan. Hann ætti sér þann draum að ríkisstjórnin vaknaði og tæki á vandanum. Íslendingar þyrftu snertilendingu og ná verðbólgunni niður því hún væri þjófur í veskjum landsmanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×