Erlent

Arabaríki sameinast um fréttahamlandi lög

Óli Tynes skrifar
Útsending á Al Jazeera.
Útsending á Al Jazeera.

Arabaríki samþykktu í dag sameiginleg lög um gervihnattasjónvarp sem styrkir vald þeirra yfir slíkum útsendingum og setur pólitískri umræðu hömlur.

Í samþykkt sem upplýsingamálaráðherrar landanna undirrituðu í Kaíró í dag, er bergmálað orðalag í fjölmiðlalöggjöf sumra arabaríkjanna.

Það er með þeim hætti að hægt er að nota það til að draga blaðamenn fyrir dómstóla ef þeir gagnrýna ríkisstjórnir landa sinna.

Stjórnmálaskýrendur segja lögin vera viðbrögð við arabiskum gervihnattastöðvum eins og Al Jazeera. Þær eru í einkaeign og njóta nokkurs frelsis miðað við þann heimshluta sem þær eru í.

Saudi Arabía, er eitt landanna sem undirritaði hin sameiginlegu lög í dag. Þar voru spjallþættir í beinni útsendingu bannaðir nýlega eftir að maður sem hringdi inn í spjallþátt gerði grín að launahækkun opinberra starfsmanna.

Litið var á það sem gagnrýni á konungsfjölskylduna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×