Innlent

Matsmaður metur hvort farið hafi verið illa með hest

Kompás fjallaði um  mál mannsins í fyrra.
Kompás fjallaði um mál mannsins í fyrra.

Hæstiréttur hefur vísað frá kærumáli manns sem sakaður er um að hafa farið illa með hross á þeim grundvelli að kæra hans til Hæstaréttar hafi borist of seint. Matsmaður verður því kallaður til í málinu.

Maðurinn sætti rannsókn vegna gruns um illa meðferð á hrossi en myndir af honum birstust í fréttaskýringarþættinum Kompási í fyrravor. Héraðsdýralæknir kærði athæfið en lögreglustjóri felldi málið niður á þeim grundvelli að ekki væru nóg sönnunargögn til að sakfella manninn.

Þá ákvörðun kærði héraðsdýralæknir til ríkissakóknara sem komst að því að lögregla skyldi taka málið upp aftur. Meðal þeirra gagna sem lagt var fyrir lögreglu að afla var mat kunnáttumanns á því hvort háttsemi mannsins væri til þess fallin að fara illa með hest, hrekkja hann eða meiða.

Við þá ákvörðun sætti maðurinn sig ekki og leitaði til héraðsdóms. Hann komst að því að dómkveðja skyldi matsmann í málinu. Þá ákvörðun gat maðurinn kært til Hæstaréttar og hafði til þess þrjá sólarhringa eftir úrskurð héraðsdóms. Kæra hans barst hins vegar of seint og því vísaði Hæstiréttur málinu frá í dag. Það þýðir að dómur héraðsdóms stendur og kalla má matsmann til í málinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×