Innlent

Rafiðnaðarsambandið greiddi 600 þúsund króna skaðabætur fyrir Guðmund

Guðmundur Gunnarsson
Guðmundur Gunnarsson

Guðmundur Gunnarsson formaður Rafiðnaðarsambandsins var dæmdur til þess að greiða 250 þúsund krónur í skaðabætur vegna tiltekinna ummæla í Hæstarétti fyrir skömmu. Einnig þurfti hann að greiða lögfræðikostnað. Upphæðin sem er rúmlega 600 þúsund krónur var greidd af Rafiðnaðarsambandi Íslands.

„Þetta mál var tekið fyrir í miðstjórn Rafiðnaðarsambandsins á sínum tíma og þar var komist að þeirri niðurstöðu að ég væri að sinna mínu starfi og svara spurningum um fundargerð," segir Guðmundur en á þeim forsendum var ákveðið að sambandið myndi greiða skaðabæturnar.

Um er að ræða ummæli sem Guðmundur hafði uppi um starfsmannaleiguna 2b ehf og töldu eigendur hennar ummælin ærumeiðandi.

Annar eigandinn, Olena Shcavynska krafðist þess að ummæli Guðmundar um sig yrðu dæmd ómerk. Í héraðsdómi var Guðmundur dæmdur til þess að greiða eina milljón í skaðabætur.

Hæstiréttur sýknaði hinsvegar Guðmund af hluta ummælanna en taldi að Guðmundur hefði með ummælum um Olenu sakað hana um ámælisverða háttsemi, sem sönnur hefðu ekki verið færðar fyrir og var með þeim vegið að æru hennar. Voru þessi ummæli dæmd ómerk og hann dæmdur til þess að greiða fyrrnefndar skaðabætur.

„Ég sagði þetta ekki heldur var bara að vitna í fundargerð. Það voru verkstjórar fyrir austan sem viðhöfðu þessi ummæli og höfðu eftir konunni. Þeir staðfestu það fyrir dómi," segir Guðmundur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×