Innlent

Þrír landsbyggðarþingmenn geta deilt aðstoðarmanni

MYND/GVA

Aðstoðarmenn formanna stjórnmálaflokka verða í fullu starfi og hafa starfsaðstöðu á skrifstofum Alþingis en aðstoðarmenn alþingismanna verða í þriðjungsstarfi og hafa starfsaðstöðu í kjördæmunum.

Þetta er meðal þess sem fram kemur í tillögum sem forsætisnefnd Alþingis samþykkti á fundi sínum í dag og lúta að fyrirkomulagi aðstoðarmanna alþingismanna.

Í tengslum við breytingar á þingsköpum á Alþingi fyrir áramót var samþykkt að koma á fót störfum aðstoðarmanna þingmanna. Annars vegar var gert ráð fyrir starfi aðstoðarmanna formanna stjórnarandstöðuflokka og hins vegar starfi aðstoðarmanna þingmanna úr landsbyggðarkjördæmunum þremur, Norðvestur-, Norðaustur- og Suðurkjördæmum.

Samkvæmt tillögunum verður þingmönnunum heimilt að slá sér saman um ráðningu aðstoðarmanns og hækkar þá starfshlutfall hans í samræmi við það. Þrír þingmenn geta því deilt með sér einum aðstoðarmanni. Laun aðstoðarmanna verða hlutfall af þingfararkaupi.

Fram kemur í tilkynningu frá Alþingi að aðstoðarmennirnir verði ráðnir eftir tillögu viðkomandi alþingismanna en skrifstofa Alþingis mun sjá um alla launaumsýslu og gerð ráðningarsamninga. Ráðningartímabil verður að hámarki til loka kjörtímabils hverju sinni.

Aðstoðarmennirnir munu vinna eftir fyrirmælum alþingismannanna. Þeir fá jafnframt greiðslu fyrir útlögðum kostnaði eftir nánari reglum. Aðstoðarmennirnir verða ekki opinberir starfsmenn en áskilið er að farið verði eftir sömu almennu hæfisskilyrðum og gilda um opinbera starfsmenn. Enn fremur eru settar skorður við skyldmennaráðningum.

Reglur um aðstoðarmenn alþingismanna munu öðlast gildi frá og með 1. mars 2008 og verða þá birtar á heimasíðu Alþingis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×