Erlent

Drakúla fjölskyldan í Buckingham höll

Óli Tynes skrifar
Mohammed al-Fayed.
Mohammed al-Fayed. NETIÐ

Mohammed al-Fayed sparaði ekki stóryrðin þegar hann var kallaður sem vitni í dag vegna rannsóknar á dauða sonar hans Dodi, og Díönu prinsessu.

Hann hélt því fram að breska konungsfjölskyldan hefði látið leyniþjónustuna MI5 myrða þau til að koma í veg fyrir að prinsessan giftist múslima.

Hann kallaði konungsfjölskylduna Drakúla fjölskylduna í Buckingham. Sagði að Filipus prins væri rasisti og nasisti sem ætti að skila til Þýskalands. "Viljið þið vita hans rétta nafni ? Það endar á Frankenstein," sagði al-Fayed.

Egypski kaupsýslumaðurinn sagði að Díana hefði trúað sér fyrir því að Charles prins og faðir hans vildu losna við hana til þess að prinsinn gæti kvænst Camillu Parker-Bowles. Franska leyniþjónustan hefði aðstoðað við morðið.

Al Fayed sagði einnig að daginn áður en þau fórust hefði Díana trúað sér fyrir því í símtali að hún ætti von á barni og að hún og Dodi væru trúlofuð. Þau ætluðu að skýra opinberlega frá því eftir helgina.

Bæði franska lögreglan og sú breska gerðu ítarlega rannsókn á bílslysinu í París fyrir tíu árum.

Bæði liðin komust að þeirri niðurstöðu að það hefði ekki verið neitt annað en hörmulegt slys.

Samkvæmt breskum lögum verður engu að síður að fara fram réttarrannsókn, og það er hún sem nú stendur yfir í Bretlandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×