Erlent

ESB náði ekki saman um Kosovo

Óli Tynes skrifar
Fyrirsjáanlegt er að erlendir gæsluliðar verða í Kosovo enn um hríð.
Fyrirsjáanlegt er að erlendir gæsluliðar verða í Kosovo enn um hríð.

Evrópusambandinu tókst ekki að ná samkomulagi um að sambandið í heild sinni viðurkenndi sjálfstæði Kosovo.

Tilkynnt var fyrir stundu að hvert land um sig myndi taka ákvörðun í samræmi við eigin utanríkisstefnu.

Bandaríkin og Frakkland hafa þegar viðurkennt sjálfstæði héraðsins. Spánverjar hafa hinsvegar sagt að þeir muni ekki gera það. Spánverjar óttast viðbrögðin í baskahéruðum sínum. Baskar hafa barist fyrir sjálfstæðu ríki á Norður-Spáni í áratugi.

Fleiri ríki með minnihlutahópa eru hikandi og Serbar og Rússar eru algerlega á móti sjálfstæði Kosovo. Bush Bandaríkjaforseti sagði að í framhaldinu verði tekið mið af áætlun Martis Athisaris, um framtíð héraðsins. Athisari var sérstakur sendifulltrúi Sameinuðu þjóðanna í málinu.

Tillögur hans voru hinsvegar aldrei lagðar fyrir Öryggisráðið, þar sem Rússar hótuðu að beita neitunarvaldi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×