Erlent

Tryggingafélög rukka börn

Óli Tynes skrifar
Unglingar undir lögaldri hafa kveikt marga elda í Danmörku í óeirðunum undanfarið.
Unglingar undir lögaldri hafa kveikt marga elda í Danmörku í óeirðunum undanfarið.

Dönsk tryggingafélög segjast hiklaust munu senda börnum reikninga fyrir skemmdum sem þau hafa valdið í óeirðunum undanfarna daga.

Margir krakkar undir lögaldri hafa verið gripnir fyrir að kveikja í skólum, bílum og ruslagámum. Og vinna önnur skemmdarverk. Tjónið nemur hundruðum milljóna íslenskra króna.

Talsmaður tryggingafélaganna segir að foreldrar eigi ekki að borga fyrir tjón sem börn þeirra valda. Það eigi börnin sjálf að gera. Hann bendir á fordæmi. Til dæmis séu börn látin borga fyrir veggjakrot sitt.

Talsmaðurinn segir að börnin geti setið uppi með skaðabótagreiðslur langt fram á fullorðinsár. Hann segir að vel geti verið að þau eigi enga peninga í dag. Þá verði reynt að komast að skynsamlegu samkomulagi um afborganir.

Ef það takist ekki verði reynt að fá þau dæmd til þess að greiða skaðabætur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×